Bergsteinn Björgúlfsson

Bergsteinn Björgúlfsson lærði fjölrása hljóðupptökur í Institute of Audio Research í New York 1983-84. Starfaði sem fjölrása upptökumaður hjá hljóðupptökuverunum Mjöt, Grettisgati og Sýrlandi í nokkur ár. Árið 1986 var hann ráðinn hljóðmaður hjá Stöð 2 sem þá var verið að stofna og eftir nokkra mánuði tók hann við stöðu kvikmyndatökumanns. Bergsteinn fór að taka að sér verkefni sem  fjaðurstoðartökumaður (steadicam) og sem kvikmyndatökustjóri í lausamennsku með sjónvarpsvinnunni og 1990 fór hann aftur til Bandaríkjanna og tók þar kúrsa í filmuvinnu og lýsingu í Rockport, Maine, Film and Video Workshops. Fljótlega tók starf kvikmyndatökustjóra yfir og 1990 stofnaði hann sitt eigið fyrirtæki, Köggul kvikmyndagerð, og hætti hjá Stöð 2. Bergsteinn framleiddi og meðleikstýrði heimildamyndinni „Syndir Feðranna“ sem umturnaði Íslensku samfélagi í nokkra mánuði, þar sem löngu grafin leyndarmál voru dregin fram í dagsljósið. Bergsteinn hefur hins vegar nær eingöngu unnið sem kvikmyndatökustjóri við kvikmyndir, sjónvarpsseríur og einstöku auglýsingar. Myndirnar hans eru m.a. Mýrin, Börn, Foreldrar, Astrópía, Skrapp út, Brúðguminn, Reykjavík Rotterdam (sem nú er verið að endurgera í Hollywood sem „Conrtraband“), Draumalandið, Gargandi snilld, Kóngavegur, Bjarnfreðarson og Djúpið. Bergsteinn hefur hlotið Edduverðlaun fjórum sinnum fyrir bestu kvikmyndatökustjórn og einu sinni fyrir bestu heimildamynd.

vefsíða. www.koggull.com