Bergsteinn Björgúlfsson hóf sinn feril í tónlist og hljóði og lærði fjölrása hljóðupptökur í Institute of Audio Research í New York. 1986 hóf hann störf hjá Stöð 2, sem þá var verið að stofna og tók við stöðu kvikmyndatökumanns. Bergsteinn hóf þá einnig að starfa sem fjaðurstoðartökumaður (steadicam) og sem kvikmyndatökustjóri. 1990 fór hann aftur til Bandaríkjanna til náms, í lýsingu og filmuvinnu, í Rockport, Maine, Film and Video Workshops. Árið 1990 stofnaði hann sitt eigið fyrirtæki, Köggull kvikmyndagerð, og hefur eingöngu unnið sem kvikmyndatökustjóri við kvikmyndir, sjónvarpsseríur og auglýsingar síðan. Bergsteinn stóð fyrir stofnun ÍKS, Félags Íslenskara kvikmyndatökustjóra árið 2011 og er forseti þess. Hann er jafnframt stjórnarmaður í FK. Hann framleiddi og leikstýrði heimildamyndinni „Syndir Feðranna“ þar sem löngu grafin leyndarmál voru dregin fram í dagsljósið. Myndirnar hans eru m.a. Hross í oss, Julia, Djúpið, XL, Mýrin, Börn, Foreldrar, Astrópía, Skrapp út, Brúðguminn, Reykjavík Rotterdam (sem var endurgerð í Hollywood sem „Conrtraband“), Draumalandið og Gargandi snilld. Bergsteinn hlaut Tallin „Black Night“ verðlaunin fyrir stjórn kvikmyndatöku á „Hross í oss“ ásamt N.Y. Horror filmfest og Florida filmfest verðlaunum fyrir stjórn kvikmyndatöku á „Juliu“. Hann hefur hlotið Edduverðlaun sex sinnum fyrir stjórn kvikmyndatöku og einu sinni fyrir bestu heimildamynd.